Red Barnett – sólóverkefni Haraldar V. Sveinbjörnssonar

Red Barnett
Í fréttatilkynningu segir:

Red Barnett er sólóverkefni Haraldar V. Sveinbjörnssonar, en hann mörgum kunnur úr íslensku tónlistarlífi, þó oftast hafi hann starfað á bakvið tjöldin ef svo má segja.

Hugmyndin að Red Barnett kviknaði haustið 2004 þegar Haraldur kom heim úr tónsmíðanámi með fjölda laga í farteskinu. Fyrstu tónarnir voru teknir upp árið 2005 og hefur verkefnið mjatlað hægt og bítandi síðan, meðfram öðrum fyrirferðarmeiri verkefnum Haraldar. Tónlist Red Barnett er best lýst sem angurværri rökkurtónlist um lífið og tilveruna, og er að mestu flutt og tekin upp af Haraldi.

Haraldur er klassískt menntað tónskáld, en er einnig þekktur sem gítarleikari og lagasmiður sveitarinnar Dead Sea Apple, hljómborðsleikari og einn söngvara Manna ársins og nú nýverið bassaleikari í Buff, auk þess að hafa starfað náið með sveitum eins og Dúndurfréttum og Skálmöld.

Þá hefur hann unnið með og útsett fyrir fjölda tónlistarmanna, t.a.m. Bubba, Björgvin Halldórsson, Baggalút, Megas, Pál Óskar, 200.000 naglbíta, Fjallabræður, Buff, Dimmu, Kontinuum, Regínu Ósk og hin færeysku Lenu Anderssen, Lív Næs og Trónd Enni. Hann hefur líka átt útsetningar á fjölmörgum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands með innlendum listamönnum. Má þar nefna hina geysivinsælu Skálmaldartónleika 2013, Hátíðartónleika FTT 2013, Pál Óskar & Sinfó 2010 & 2011, Dúndurfréttir & SÍ 2007 (Pink Floyd The Wall) og Söngbók Gunnars Þórðarsonar 2009.

Lagið “Life Suppor”t er fyrsta “opinbera” lagið af plötu Red Barnett sem ber nafnið Shine og er væntanleg í apríl á þessu herrans ári.

Samhliða útgáfu lagsins mun Red Barnett standa fyrir hópsöfnun/forsölu á plötunni á vef Karolina Fund á næstu dögum til að fjármagna lokahnykk plötuútgáfunnar.

Anna María sendir frá sér plötuna Hver stund með þér

Í fréttatilkynningu segir:

Anna María Björnsdóttir er að gefa út sína aðra sólóplötu Hver stund með þér. Anna María samdi alla tónlistina á plötunni við ástarljóð sem afi hennar, Ólafur Björn Guðmundsson, orti til ömmu hennar, Elínar Maríusdóttur, yfir 60 ára tímabil. Samhliða geisladisknum er verið að klára heimildarmynd um ljóðin, ástina, Óla og Ellu. Svavar Knútur Kristinsson syngur og spilar með Önnu Maríu á plötunni sem tekin var upp síðastliðið sumar á heimili foreldra Önnu Maríu í Garðabæ.

Anna María sá þessi ljóð fyrst eftir að afi hennar og amma voru bæði látin og fannst henni þau geyma mikinn fjársjóð um ástina og það fagra í heiminum.

,,Ljóð afa til ömmu fela í sér fallegan boðskap um hvernig ástin getur haldist hrein og vaxið og dafnað í heila mannsævi. Þau hafa haft sterk áhrif á mig og langaði mig að gera þau aðgengileg fleirum á þann hátt sem best liggur fyrir mér, með söng og tónlist. Ég settist því niður við píanóið mitt í Kaupmannahöfn fyrir tæpum tveimur árum og hóf að semja og útsetja tónlist við ljóðin. Árangurinn af því er þessi plata. Vona ég að ljóðin hans afa muni þannig lifa áfram og veita öðrum þá gleði sem þau hafa veitt mér.“

segir Anna María.

Útgáfutónleikarnir verða fimmtudagskvöldið 12.mars kl 20:00 í Salnum í Kópavogi. Miðasala á midi.is

Soffía Björg sendir frá sér sína fyrstu smáskífu

Soffía Björg

Tónlistarkonan Soffía Björg hefur sent frá sér fyrsta lagið af komandi breiðskífu sinni.

Lagið er titillag plötunnar en hún er væntanleg nú á vormánuðum. Soffía Björg og hljómsveit hennar hafa verið iðin undanfarið ár við að spila á ýmsum festivölum og tónleikum (Reykjavik Folk Festival, Aldrei fór ég suður, Rauðasandur o.fl) og stönda nú í ströngu leggja lokahönd á plötuna.

Rjóminn fylgist spenntur með framvindu mála.

Secret Swing Society á Café Rosenberg, 25. febrúar

Secret Swing Society

Í fréttatilkynningu segir:

Hljómsveitin Secret Swing Society heldur tónleika á Café Rosenberg, Klapparstíg, miðvikudagskvöldið 25. febrúar kl. 21:00.

Hljómsveitin leikur og syngur gamaldags sveiflutónlist, frumsamda og ættaða frá höfundum og flytjendum á borð við Duke Ellington, Gershwin bræðrum, Louis Armstrong, The Mills Brothers, Louis Prima, Django Reinhardt og Fats Waller.

Hljómsveitin var stofnuð í Amsterdam árið 2010, meðan meðlimir hennar stunduðu þar tónlistarnám, og hefur hún spilað mikið úti á götum, mörkuðum og síkjum borgarinnar. Einnig hefur hún ferðast til fleiri borga í Hollandi, Belgíu, Frakklandi, Þýskalandi, Litháen og á austurströnd Bandaríkjanna, ýmist til að spila á jazzhátíðum, tónleikum eða úti á götum. Secret Swing Society hafa tvisvar komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur, ásamt því að standa sjálfir fyrir tónleikum og dansleikjum í Reykjavík og úti á landi.

Meðlimir eru Andri Ólafsson á kontrabassa, Grímur Helgason klarinettleikari, franski gítaristinn Guillaume Heurtebize, trompetleikarinn Dominykas Vysniauskas frá Litháen, og píanistinn, Hafnfirðingurinn og harmónikkuleikarinn Kristján Tryggvi Martinsson, en þeir syngja allir.

Rjóminn frumsýnir nýtt myndband Just Another Snake Cult

Rjóminn frumsýnir nýtt myndband við lagið “What Was Yr Name Again?” en það er að finna á örskífu Just Another Snake Cult sem nefnist Lost in The Dark.

Just Another Snake Cult býður nú upp á áskrift að tónlist sinni. Innifalið í áskrift er meðfylgjandi lag ásamt öllu öðru sem sveitin hefur sent frá sér, jafn vel plötur sem eru löngu uppseldar og hvergi fáanlegar, auk þess sem Költið kemur til með að gefa út.

Áhugasamir geta smellt sér í áskrift á Bandcamp síðu sveitarinnar.

Þórir, forsprakki Just Another Snake Cult , og Ásthildur Ákadóttir munu spinna einhverja ljúfa tónlist saman í nokkra klukkutíma á lowercase nights tónleikaröðinna á Húrra núna á sunnudaginn 22. febrúar.

Þess má svo geta að Þórir var að pródúsera plötu fyrir leikritið Lísa í Undralandi sem Leikfélag Akureyrar setur upp en tónlistin er samin af Dr. Gunna. Platan fæst ókeypis á undralandla.bandcamp.com

Nýtt myndband frá Grísalappalísu

Sambýlismenn Grísalappalísu

Í fréttatilkynningu segir m.a.

Hljómsveitin Grísalappalísa setur nýtt lag í spilun frá og með deginum í dag – og ekki nóg með það – heldur fylgir með spánýtt vídejó! Lagið heitir “Sambýlismannablús” og er fyrsta lagið á nýjustu afurð hljómsveitarinnar Rökrétt framhald. Lagið er hefðbundinn “lofsöngur” (e. rock anthem) sem mun hljóma í leikhléum á handknattleiksleiksleikum um ókomina framtíð. Lagið er lofsöngur sambýlisfólks allra landa, en uppspretta textans er ærslafullt og afdrifaríkt sambýli tveggja náinna karlmanna. Hefðbundin hjúskapamein eru ekki bundin við hjónabönd eins og hlustendur komast að. Ekkert er þó yfirstíganlegt og með fórnum og fyrirgefningu er allt hægt. Textinn er eftir Baldur Baldursson skáld, en með hlutverk prótagónistans fer forsöngvari hljómsveitarinnar Gunnar Ragnarsson. Lagið er eftir Grísalappalísu og hljóðritað í einni atrennu beint á harðan disk.

Myndbandinu er leikstýrt af Sigurði Möller Sívertsen, trommara Grísalappalísu, en hann hlaut einmitt Íslensku tónlistarverðlaunin í fyrra fyrir myndband sitt við lag sveitarinnar “Hver er ég?”. Við gerð myndbandsins voru notaðar tvær gó-pró myndavélar ásamt iPhone 6. Fylgst er með sambýlingunum drekka kaffi, reykja sígarettur og svo loks skella sér í sjósund í Nauthólsvík. Glöggir áhorfendur bera kannski augum landsþekktan guðföður sveitarinnar, hvur veit?

Rökrétt framhald má heyra í heild sinni hér að neðan.

Cheddy Carter á Kex Hostel í kvöld

Cheddy Carter

Í kvöld mun hip-hop hljómsveitin Cheddy Carter frumflytja nýtt efni fyrir gesti og gangandi á Kex Hostel. Tónlistarmaðurinn Vrong mun mýkja hljóðhimnur gesta frá kl. 21:00, áður en Cheddy Carter stígur á stokk. Aðgangur er ókeypis.

Cheddy Carter er nýtt hip-hop band sem saman stendur af Fonetik Simbol, IMMO og Charlie Marlowe. Hljómsveitin var stofnuð í byrjun árs 2014 og hefur síðan þá eytt sínum tíma í að skola niður nautakjöti og ostum með rauðvíni í hljóðveri sínu.

Meðlimir Cheddy hafa unnið saman undir öðrum formerkjum síðan árið 2002 og má segja að Cheddy Carter sé ein af þeim fáu sem halda lífi í íslensku hip-hopi á enskri tungu.

MSTRO

Stefán Ívars heitir ungur listamaður sem undanfarið hefur gefið út tónlist undir listamansnafninu Maestro. Nú hefur Stefán uppfært sitt tónlistarlega sjálf og gefur út sitt fyrsta lag, ásamt myndbandi, undir nafninu MSTRO.

Myndbandið gerði Stefán sjálfur ásamt bróðir sínum auk þess sem hann sér sjálfur um útlit og hönnun tengda tónlistarútgáfu sinni.

Plata er væntanleg frá MSTRO þann 14. febrúar næstkomandi.

Fyrsta myndband Antimony

Antimony er nýbylgju drunga-popp sveit frá Reykjavík og samanstendur af RX Beckett, Birgi Sigurjóni Birgissyni, og Sigurði Angantýssyni. Þau blanda saman straumum og stefnum frá jaðar- tónlist níunda áratugarins á borð við goth og cold wave. Ímyndin og hugmyndafræðin á bakvið útlit og stefnu bandsins eru dregin frá ýmsum menningarkimum og má þar nefna myndir eftir David Lynch, pönk, óhefðbundnar kynímyndir, vísindaskáldsskapur og hryllingsmyndir.

Antimony hefur gefið út sitt fyrsta lag sem nefnist “So Bad” og myndband við af frumburði sínum OVA sem kemur út 11.Febrúar.

Sveitin spilar sama dag á Húrra ásamt russian.girls, Döpur og Börn. Aðgangseyrir er 1000 kr. og rennur ágóðinn óskertur til Krabbameinsfélagsins.

Páll Óskar – Einkasafn poppstjörnu

Páll Óskar - Einkasafn poppstjörnu
Í fréttatilkynningu segir

Rokksafn Íslands í Reykjanesbæ opnar fyrstu sérsýningu sína laugardaginn 14. mars. Fyrsti listamaðurinn sem tekinn verður fyrir er stórsöngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson. Sýningin ber heitið „Páll Óskar – Einksafn poppstjörnu“. Hann fagnar einmitt 45 ára afmæli sínu þann 16. mars og er því tilvalið að opna yfirlitssýningu yfir líf hans og störf þessa ákveðnu helgi.

Páll Óskar er mikill safnari og mun sýningin vera sterkur vitnisburður um það. Meðal muna á sýningunni verða allir sérhannaðir búningar og fatnaður af tónleikum hans – allt frá Rocky Horror sýningu leikfélags MH frá árinu 1991 til dagsins í dag, handskrifaðar dagbækur hans, teikningar frá barnæsku, allar gull- og platínuplöturnar hans, plaköt frá tónleikum og dansleikjum, upprunaleg texta- og nótnablöð af þekktustu lögum hans og þannig mætti lengi telja. Persónulegir munir Palla verða ekki langt undan og gefst gestum meðal annars kostur á að skoða hinn fræga Nokia 6110 síma sem hann átti í ein 14 ár!

Sýningin verður gagnvirk. Gestir geta skellt sér í hljóðeinangraðann söngklefa, valið sér tóntegund og sungið Pallalögin í þar til gerðu hljóðveri og fengið upptökuna með sér heim. Einnig geta gestir prófað að hljóðblanda nokkur vel valin Pallalög eftir upprunalegum hljóðrásum og gert eigin útgáfu af völdu lagi.

Þá geta gestir komið sér huggulega fyrir og horft á tónleikaupptökur, öll tónlistarmyndböndin, gamla sjónvarpsþætti og hlustað á gamla útvarpsþætti Palla eins og “Sætt og Sóðalegt” og “Dr. Love”.

Sýningin verður opnuð formlega þann 14. mars kl. 15:00 og eru allir hjartanlega velkomnir. Helgina 14.-15. mars er Safnahelgi á Suðurnesjum en þá helgi verður ókeypis inn á öll söfn á Suðurnesjum og verður opnun sýningarinnar „Páll Óskar – Einksafn poppstjörnu“ hluti af Safnahelgi. Sýningarstjóri er Björn G. Björnsson.

Frumsýningargleði Sesar A í kvöld

Sesar A Banner

Í tilefni af frumsýningu nýrra tónlistarmyndbanda Sesar A og enduropnun heimasíðunnar, www.sesar-a.com, verður slegið upp gleðskap á Gauknum í kvöld.

Heimasíðan, sem fór fyrst í loftið árið 2000, er núna orðin miðstöð tengla fyrir það helsta sem tengist Sesar A á netinu. Þar er m.a. beintenging inn á samfélagsmiðlana, myndbandsrásir á vimeo og þúskjánum (youtube) sem og Bandcamp síðu Sesar A.

Síðastnefnda síðan, www.sesara.bandcamp.com, býður upp á frítt niðurhal af nýja laginu “Láttu renna”. Allar plötur Sesar A eru einnig væntanlegar þar inn: Stormurinn á eftir lognin, Gerðuþaðsjálfur og Of gott…. Gestur á síðunni ræður hvort hann styrkir listamanninn, fyrir niðurhal á lögum hans, eða setur “0” í reit fyrir kaupverð og halar þannig niður frítt. Sömuleiðis er hægt að streyma frítt af síðunni.

Á í kvöld verða frumsýnd ný tónlistarmyndbönd við lögin “Láttu renna” og “Nema hvað”.

Í framhaldi leikur Sesar A ásamt Dj Kocoon og Anítu Laskar fyrir dansi, sérstakir gestir eru Blaz Roca, Herra Hnetusmjör og Dj Moonshine.

Aðgangur er ókeypis, happy hour á barnum frá kl. 21-22.

Oyama og Tilbury á tónleikum

Tónleikar Oyama og Tilbury

Hljómsveitin Oyama er hægt og rólega að rísa úr dvala eftir annasama haustmánuði árið 2014. Auk þess að fara í tónleikaferð til Japan gaf sveitin út plötuna Coolboy í nóvember sem hlaut frábærar viðtökur og var inni á langflestum topplistum íslenskra miðla, auk þess sem lagið “Siblings” var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Nú blása Oyama til tónleika ásamt hljómsveitinni Tilbury og fara herlegheitin fram 6. febrúar á Húrra. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og kostar 1500 kr. inn.

Af þessu tilefni hafa Oyama ákveðið að gefa áhugasömum lagið “Another Day” af plötunni Coolboy sem frítt niðurhal á Bandcampsíðu sinni. Laginu má hlaða niður hér.

Breiðskífan Muted World með Muted komin út

Muted
Í fréttatilkynningu segir:

Muted World er heimboð í hugarheim Muted, sem heitir réttu nafni Bjarni Rafn Kjartansson. Hann endurvinnur hljóð sem hann sarpar úr umhverfi sínu og kemur þeim til skila á afar áhugaverðan hátt. Hugmyndarfræðin á bakvið breiðskífuna var að leyfa hlustandanum að stíga inn í veröld listamannsins í gegnum tilraunakennda og frumlega vinnslu á umhverfishljóðum, í bland við raftóna svo úr verði einstakur hljóðheimur. Muted samdi alla tónlist plötunnar ásamt texta lagsins “Special Place” sem Jófríður Ákadóttir söngkona hljómsveitarinnar Samaris syngur.

Muted hefur verið þekkt nafn meðal tónlistargrúskara, þá helst fyrir taktasmíðar hans – en fjölmargir rappara hafa notast við undirleik hans í gegnum árin. Hann hefur einnig getið sér orðstír sem eftirsóknarverður endurhljóðblandari, en t.a.m. liggja eftir hann endurhljóðblandanir fyrir Samaris, Asonat og Justice.

Breiðskífan er fáanleg á stafrænu formi á raftonar.bandcamp.com

Berlin X Reykjavík Festival

Poster

Extreme Chill Festival og tónlistarhátíðin Berlín XJAZZ kynna : Berlin x Reykjavík Festival – Reykjavík 26-28. Febrúar og Berlín 5-7. Mars.

Hátíðin í Reykjavík verður haldin á Kex Hostel og á Húrra dagana 26 – 28 Febrúar.
það verða um 23 hljómsveitir og tónlistarmenn sem munu troða upp í Reykjavík og Berlín.

Dagskráin er ekki af verra endanum en tónlistarmenn á borð við. Emiliana Torrini ásamt Ensemble X frá Berlín, Claudio Puntin, Skúli Sverrisson, Jazzanova, Christian Prommer, Studnitzky Trio & Strings, Epic Rain, Qeaux Qeaux Joans, o.fl.ofl.

Passin á hátíðina kostar aðeins 5900 kr. alla þrjá dagana í Reykjavík og fyrir þá sem ætla líka að skella sér til Berlínar munu geta notað passann sinn þar en hátíðin í Berlín verður dagana 5-7 Mars á hinum magnaða stað Neau Heimat.

Miðasala er  á midi.is

Nýtt lag frá hljómsveitinni Quest

Quest

Breiðholtsbræðurnir í Quest sendu nú á laugardaginn var frá sér sitt fyrsta lag. Ber það nafnið “Silver Lining” og er af komandi stuttskífu sveitarinnar sem hefur hlotið nafnið Gala.

Quest er verkefni sem stofnað var til í byrjun sumars árið 2014 og er byggt á rústum ólíkra hljómsveita og verkefna, þar með talið hljómsveitanna Two Tickets to Japan og At Dodge City án þess þó að tónlist sveitarinnar beri þess merki.

Hljómsveitina skipa þeir Bjarni Svanur Friðsteinsson, Grétar Mar Sigurðsson, Hreiðar Már Árnason og Ingólfur Bjarni Kristinsson.

Rivers & Poems með Bistro Boy og Nobuto Suda

Rivers and Poems by Bistro Boy & Nobuto Suda

Í dag, þann 15. janúar, kemur út á vegum Möller Records EP platan Rivers and Poems en hún er samstarfsverkefni íslenska raftónlistarmannsins Bistro Boy og hins japanska Nobuto Suda. Þetta er önnur platan sem afrakstur samstarfs íslenskra og japanskra tónlistarmanna getur af sér en verkefnið er hugarfóstur Árna Grétars (betur þekktur sem Futuregrapher). Fyrsta útgáfan í þessari útgáfuröð var platan Crystal Lagoon sem Futuregrapher vann með japanska tónlistarmanninum Hidekazu Imashige (Gallery six) og Veroníque Vaka Jacques.

Á Rivers and Poems er kallast saman taktar og melódíur Bistro Boy á við sveimkenndan undirtón Nobuto Suda. Platan inniheldur 5 lög en hægt er að nálgast hana á vef Möller Records, www.mollerrecords.com

Monoglot

Monoglot

Kristinn Smári Kristinsson er ekki þekktur í íslensku tónlistarlífi enda verið búsettur í Sviss undanfarin ár. Kristinn er meðlimur hljómsveitarinnar Monoglot en hún gaf nýverið út sína fyrstu plötu. Á henni hrærir sveitin í ansi bragðgóðan jafning af djazz með indí ívafi og örlitlu pönki til bragðbætingar.

Þessa ágætis samnefndu plötu Monoglot má heyra hér að neðan.